Ferill 128. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 128 . mál.


Ed.

132. Frumvarp til laga



um sérstakan skatt á verslunar - og skrifstofuhúsnæði.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



1. gr.


     Eigendur fasteigna, sem nýttar eru við verslunarrekstur eða til skrifstofuhalds, skulu á árinu 1991 greiða sérstakan eignarskatt til ríkissjóðs.

2. gr.


     Skattskylda hvílir á aðilum sem skattskyldir eru samkvæmt ákvæðum I. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, auk þess bönkum og sparisjóðum og innlánsstofnunum.

3. gr.


     Stofn til sérstaks eignarskatts skal vera fasteignamatsverð í árslok 1990 á fasteign sem nýtt er við verslunarrekstur eða til skrifstofuhalds ásamt tilheyrandi lóð, enda þótt um leigulóð sé að ræða, þó að frádregnu afgjaldskvaðarverðmæti leigulóðar sem skal telja sem stofn hjá eiganda hennar.
     Ef fasteignamatsverð er ekki fyrir hendi skal miða við kostnaðar - eða kaupverð eignar eða áætlað fasteignamatsverð.

4. gr.


     Við ákvörðun á því hvaða eignir myndi stofn til sérstaks eignarskatts skal miða við raunverulega notkun fasteignanna í árslok 1990.
     Sé sama eignin notuð við verslunarrekstur eða til skrifstofuhalds, en einnig til annars, skal við ákvörðun á skattstofni skipta verðmæti eignarinnar hlutfallslega.

5. gr.


     Með skattframtali 1991 skal fylgja skrá yfir eignir sem falla undir lög þessi ásamt upplýsingum um heildarfasteignamatsverð þeirra eða eftir atvikum kostnaðarverð í árslok 1990. Enn fremur skal skrá þar upplýsingar um notkun þeirra, svo og upplýsingar um rúmmál eigna sem um er getið í 2. mgr. 4. gr.
     Aðilar, sem skattskyldir eru skv. 2. gr. laga þessara en undanþegnir eru tekjuskatts - og eignarskattsskyldu, skulu fyrir 31. maí 1991 skila skrám skv. 1. mgr. til skattstjóra í því umdæmi þar sem þeir eiga lögheimili.

6. gr.


     Sérstakur eignarskattur skal nema 1,5% af skattstofni skv. 3. gr. Skattinn skal leggja á í heilum tugum króna þannig að lægri fjárhæð en 10 kr. sé sleppt.
     Sérstakan eignarskatt, sem ekki nær 4.000 kr., skal fella niður við álagningu.

7. gr.


     Ákvæði VIII. XIV. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, skulu gilda um álagningu og innheimtu sérstaks eignarskatts eftir því sem við á nema öðruvísi sé ákveðið í lögum þessum.

8. gr.


     Skatt samkvæmt lögum þessum má draga frá tekjum rekstrarársins 1990 sem rekstrarútgjöld við álagningu tekjuskatts og útsvars á árinu 1991. Þá er skatturinn til frádráttar eignum við ákvörðun eignarskatts samkvæmt lögum nr. 75/1981 eftir reglum lokaákvæðis 1. mgr. 76. gr. þeirra laga.

9. gr.


     Ráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd laga þessara með reglugerð.

10. gr.


     Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 1991.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Sérstakur skattur á skrifstofu - og verslunarhúsnæði var lagður á í fyrsta sinn á árinu 1979. Skatturinn hefur síðan verið lagður á árlega samkvæmt sérstökum lögum sem gilt hafa fyrir eitt ár í senn. Í ár fer um álagningu og innheimtu hans eftir lögum nr. 127/1989. Í endurskoðaðri tekjuáætlun fyrir árið 1990 er áætlað að innheimtar tekjur af skattinum verði um 445 millj. kr. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1991 er gert ráð fyrir að framhald verði á skattlagningu þessari. Af þessum sökum er í frumvarpi þessu lagt til að ákvæði efnislega samhljóða lögum nr. 127/1989 verði lögfest vegna álagningar opinberra gjalda 1991. Í tekjuáætlun fjárlagafrumvarps fyrir árið 1991 er gert ráð fyrir að álagning skattsins nemi um 535 millj. kr. en innheimta 482 millj. kr. að meðtalinni innheimtu af eftirstöðvum fyrri ára.